Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 17/2012 - Úrskurður

Miðvikudaginn 27. júní 2012

 

17/2012

 

 

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r

 

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

 

Með bréfi, dags. 13. janúar 2012, kærir B hrl. f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga endurgreiðslukröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta á árinu 2010.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að við endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2010 reiknaðist Tryggingastofnun ríkisins að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár samtals að fjárhæð X kr. og var kæranda tilkynnt um það með bréfi, dags. 11. október 2011. Endurgreiðslukrafan er tilkomin vegna fjármagnstekna sem Tryggingastofnun ríkisins taldi kæranda til tekna á árinu 2010. Kærandi telur að stofnuninni hafi ekki borið að taka tillit til fjármagnsteknanna við endurreikning og uppgjör bótagreiðslnanna. Kærandi andmælti endurreikningum við Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 31. október 2011, og var þeim svarað af hálfu stofnunarinnar með bréfi, dags. 21. nóvember 2011.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

 

„A [...] hefur leitað til mín og óskað aðstoðar vegna afstöðu Tryggingastofnunar ríkisins til meðferðar á fjármagnstekjum sem fyrrverandi eiginmaður hennar [...] hafði á árinu 2010. Aðilar höfðu slitið samvistir í X 2009. Fyrst hafði verið leitað eftir skilnaði hjá sýslumanninum í C X 2009. Þar sem engar sættir voru í sjónmáli en sáttaviðræður í gangi á næstu mánuðum felldi sýslumaður upphaflega málið niður án þess að tilkynna aðílum sérstaklega þar um. Þann X 2010 var síðan aftur óskað eftir skilnaði hjá sýslumanni sbr. endurrit úr hjónaskilnaðarbók, en langan tíma tók að koma á samkomulagi um skilnaðarkjör og því var ekki gengið formlega frá skilnaði aðila fyrr en í X 2011. Aðilar töldu fram sitt í hvoru lagi 2011 vegna tekjuársins 2010.

 

Eins og fram kemur í bréfi D endurskoðanda til TR frá X 2011 voru umbj. mínum færðar til tekna undir liðnum fjármagnstekjur kr. X sem leiðrétting á skattframtali hennar 2011. Samkvæmt staðfestu skattframtali hennar voru fjármagnstekjur hennar kr. X. Sú skýring var gefin hjá TR að leiðréttingin hafi verið gerð vegna þess að fjármagnstekjur séu færðar af framtali fyrrverandi eiginmanns hennar á grundvelli skráningar úr þjóðskrá. Í bréfinu var þessu harðlega mótmælt og vísað til þess að A hafði slitið samvistum við fyrrverandi eiginmann sinn í X 2009 og þau voru því ekki samvistum eða höfðu sameiginlegt fjárfélag á árinu 2010. Þess var krafist að fjármagnstekjurnar yrðu felldar niður úr endurreikningi og uppgjöri á tekjutengdum bótum hennar vegna 2010.

 

Með bréfi E lögfræðings TR 21. nóvember 2011 var þessari kröfu endurskoðandans hafnað. Vísað var til þess að skv. a. lið 2. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 skiptist sameiginlegar fjármagnstekjur milli hjóna til helminga við útreikning örorkubóta. Ekki skipti máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða. Fyrir liggi að umbj. minn og fyrrverandi eiginmaður hennar hafi verið hjón í lagalegum skilningi allt árið 2010. Einnig beri að líta til þess að samkvæmt endurriti úr hjónaskilnaðarbók sýslumanns sem fylgdi bréfi endurskoðandans liggi ekki fyrir neinn samningur um fjárskipti á milli hennar og fyrrum eiginmanns hennar á árinu 2010. Tryggingastofnun telji því óhjákvæmilegt að beita ofangreindri lagareglu við endurreikning á tekjutengdum bótum hennar árið 2010.

 

Fyrir hönd umbj. míns leyfi ég mér að mótmæla afstöðu TR og geri kröfu til þess að henni verði hrundið af áfrýjunarnefnd.

 

Umbj. minn var í hjúskap með F. Aðilar gengu frá skilnaði X 2011 eftir að upphaflega hafði verið leitað eftir skilnaði í X 2009. Meðal eigna búsins var eignarhlutur F í fyrirtækinu G, en þar hafði hann [...]. Þann hlut seldi F á árinu 2010. Greiðsla vegna sölu G að frádregnum fjármagnstekjuskatti var kr. X. Við skiptin á búi þeirra hjóna kom þessi fjárhæð til skipta sem eign. Fjárhæðin hafði verið greidd manninum löngu eftir að aðilar slitu sambúð. Hann greiddi af henni fjármagnstekjuskatt. Fjárhæðin reiknast sem hluti af hjúskapareign mannsins við fjárskiptin. Þessi eign kom til skipta milli aðila við skilnaðinn skv. ákvæðum hjúskaparlaga og kom helmingur þeirrar fjárhæðar í hlut umbj. míns, kr. X. Þetta var eign sem féll í hlut umbj. míns við skilnað skv. helmingaskiptareglu hjúskaparréttarins en ekki tekjur sem verið var að greiða henni. Hefði maðurinn ekki selt hluta sinn í G hefði hluturinn komið til skipta við skilnaðinn eins og aðrar eignir. Umbreyting eignarinnar úr hlutdeild í fyrirtæki yfir í peninga eftir að búið er að leita eftir skilnaði hjá sýslumanni á ekki að hafa nein áhrif á réttarstöðu umbj. míns þegar kemur að greiðslum örorkubóta.

 

Hér verður að líta til þess við hvaða tímamark á að miða skilnað og þá á hvaða tímapunkti fjárskipti í hjúskap skuli miðast. Um það gilda ákvæði hjúskaparlaga nr. 31/1993, en í 101. gr. þeirra laga segir eftirfarandi:

 

Við úrlausn um eignir og skuldir skv. 99. og 100. gr. skal, nema sammæli verði um annað, miða við það tímamark er sýslumaður tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar, dómsmál var höfðað til skilnaðar eða ógildingar hjúskapar eða héraðsdómari tók fyrst fyrir kröfu um opinber fjárskipti milli hjóna skv. XIII. kafla. Eignir, sem maki hefur aflað sér eftir þetta tímamark og tekjur og arður af þeim, koma ekki undir skiptin. Skuldir, er maki hefur bakað sér eftir þennan tíma, koma ekki til greina við skiptin.

 

Við fjárskipti aðila var þessari reglu fylgt og komu eignir og skuldir aðila á þessum tímapunkti, þ.e. þegar fyrst var leitað til sýslumanns, til skipta. Eignir sem aflað var eftir þetta tímamark og tekjur og arður af þeim komu ekki undir skiptin. Hluti eignanna var hlutur fyrrum eiginmanns umbj. míns í G. Hluturinn var til staðar þegar fyrst var leitað skilnaðar. Fyrrum eiginmaður umbj. míns seldi síðan hlut sinn löngu eftir að sambúðarslit urðu. Eftir að hluturinn var seldur komu þeir fjármunir til skipta sem fyrir hann fékkst, svo sem fyrir er mælt í lagaákvæðinu. Eins og áður er fram komið töldu aðilar fram til skatts sitt í hvoru lagi árið 2011 vegna tekjuársins 2010.

 

Því er sérstaklega mótmælt að hægt sé að styðjast við einhverja aðra reglu en reglu hjúskaparlaga við mat á því hvort örorkubætur skuli skerðast. Enga skýra reglu um það við hvaða tímamark beri að styðjast er að finna í lögum um almannatryggingar, enda fjalla þau lög ekki um fjárskipti í hjúskap. Hér skal bent á lögskýringarreglu um að sérlög gangi framar almennum lögum. Jafnfram er vísað til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 30/1993, þar sem segir að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

 

Auk alls framangreinds vísast til ákvæðis 76. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 þar sem kveðið er á um að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Umbj. minn er einstæð móðir X barna sem greinst hefur með [...] í kjölfar fyrri veikinda sem hún hefur þurft að glíma við um X. Veikindin hefur hún þurft að glíma við ásamt því að ganga í gegn um erfiðan skilnað sem tók um X ár að útkljá. Í skilnaðarferlinu hafði gengið á ýmsu og m.a. verið óskað eftir opinberum skiptum, þótt þeim hafi aldrei verið formlega komið á. Það að vera svipt örorkubótum ofan á allt sem á undan er gengið er algerlega á skjön við tilgang þess velferðarkerfis sem stjórnarskránni er ætlað að vernda.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 25. janúar 2012. Í greinargerðinni, dags. 10. maí 2012, segir:

 

1. Kæruefnið

 

Kærður er endurreikningur tekjutengdra bóta 2010 sem kæranda var tilkynnt um með bréfi dags. 11. október 2011. Uppgjörinu var andmælt þann 31. október 2011 og svaraði Tryggingastofnunin andmælunum þann 21. nóvember 2011. Kæruefnið hér er meðferð Tryggingastofnunar á fjármagnstekjum.

 

Í kæru er rakið skilnaðarferli kæranda, sem hófst í X 2009 hjá sýslumanninum í C. Því skilnaðarmáli var vísað frá sýslumanni en hafið að nýju í X 2010. Gengið var frá skilnaði í X 2011 á grundvelli 2. mgr. 41. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Aðilarnir töldu fram sitt í hvoru lagi 2011 vegna tekjuársins 2010. Þá er fjallað um við hvaða tímamark á að miða skilnað og þá á hvaða tímapunkti fjárskipti í hjúskap skuli miðast og er í því sambandi vísað til 101. gr. hjúskaparlaga.

 

Þá er því mótmælt sem segir í kæru að hægt sé að „styðjast við einhverja aðra reglu en reglu hjúskaparlaga við mat á því hvort örorkubætur skuli skerðast. Enga skýra reglu um það við hvaða tímamark beri að styðjast er að finna í lögum um almannatryggingar, enda fjalla þau lög ekki um fjárskipti í hjúskap. Hér skal bent á lögskýringarreglu um að sérlög gangi framar almennum lögum. Jafnframt er vísað í meðalhófsreglu stjórnsýslaga nr. 30/1993, þar sem segir að stjórnvald skuli því aðeins taka í þyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmið sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.“ Kærandi fjallar einnig um veikindi kæranda. Þá er og vísað til 76. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

 

2. Lagaákvæði

 

Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (atl.) með síðari breytingum er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta.

 

Þá segir í 2. mgr.

Til tekna skv. III. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skal eftirfarandi gilda við ákvörðun tekjugrundvallar:

a. Tekjur umfram 90.000 kr. á ári skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu teljast til tekna við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu skv. 17.–19. gr. og 21.–22. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.

 

Bótagreiðsluár er almanaksár sbr. 5. mgr. 16. gr. atl. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna skv. 7. mgr. 16. gr. laganna, sbr. og III. kafla reglugerðar nr. 598/2009.

 

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 55. gr. laganna. Þar kemur fram að Tryggingastofnun skuli draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Sú skylda er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

 

Í 2. mgr. 52. gr. atl. felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki. Aftur á móti er einungis um heimild hjá Tryggingastofnun að ræða til að afla tekjuupplýsinga. Slík heimild verður þess ekki valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu.

 

3. Málavaxtalýsing

 

Uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2010, leiddi til ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa myndaðist í uppgjöri á hendur kæranda er sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2011 vegna tekjuársins 2010 hafði farið fram, kom í ljós að tekjur kæranda reyndust hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum á skattframtölum bótaþega samkvæmt 7. mgr. 16. gr. atl. og 6. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

 

Í tekjuáætlun vegna ársins 2010 sem var send kæranda þann 15. janúar 2010 var gert ráð fyrir að kærandi hefði X kr. í launatekjur og X kr. iðgjald í lífeyrissjóði. Sjá nánar í meðfylgjandi gögnum.

 

Við bótauppgjör ársins 2010 kom í ljós að kærandi hafði engin laun á árinu en var með X kr. í lífeyrissjóðstekjur. Þá voru þar fjármagnstekjur að fjárhæð X kr. Niðurstaða endurreikningsins var því krafa að fjárhæð X kr. það er allar tekjutengdar bætur kæranda á árinu 2010 voru ofgreiddar. 

 

Ágreiningur kærunnar snýr að meðhöndlun Tryggingastofnunar á fjármagnstekjum við endurreikning tekjutengdra bóta.

 

Í greinargerð kæranda er fjallað um kærandi og fyrrverandi maki hennar hafi slitið samvistum við hann í X 2009 og voru ekki með sameiginlegt fjárfélag á árinu 2010. Þá segir að sala á fyrirtæki sem leiddi til umræddra fjármagnstekna hafi verið eignarhlutur fyrrverandi eignmanns kæranda og hafi reiknast sem hluti af hjúskapareign mannsins við fjárskiptin. Og þá hafi þessi eign komið til skipta milli aðila skv. ákvæðum hjúskaparlaga og því sé ekki um að ræða tekjur sem kærandi hafi fengið. „Umbreyting eignarinnar úr hlutdeild í fyrirtæki yfir í peninga eftir að búið er að leita eftir skilnaði hjá sýslumanni á ekki að hafa nein áhrif áréttarstöðu umbj. míns þegar kemur að greiðslum örorkubóta.“ Þá vitnar kærandi í 101. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

 

Eins og komið var að hér að framan þá byggist útreikningur bóta almannatrygginga á tekjum bótaþega samkvæmt skattframtali. Tryggingastofnun hefur ekki heimild til að líta til hvernig umræddar tekjur urðu til. Rétt er að geta sérstaklega að þetta er í samræmi við niðurstöðu hæstaréttardóms í máli nr. 395/2008 þar sem tekinn var af allur vafi á að Tryggingastofnun beri að endurreikna bætur og miða við hvernig fjármagnstekjurnar eru færðar á hvert tekjuár en ekki tilurð þeirra tekna eða hvort viðkomandi hafi í raun fengið einhverja greiðslur í hendur á því ári. Kærandi var sannarlega í hjúskap á árinu 2010 og ber því að meðhöndla fjármangstekjur hennar á tiltekinn hátt sbr. ákvæði 16. gr. atl. hér að framan. Í þessu er vakin athygli á að í skilnaðarsamningi kemur fram að greiðsla vegna sölu á umræddu fyrirtæki skuli skiptast til helminga á milli hjónanna. Er því ljóst að litið var svo á að fjármagnstekjur þær sem mynduðust þrátt fyrir að hafa verið skráð eign mannsins að kærandi ætti rétt á 50% hlut í þeim fjármunum. Óljóst er því hvert lögmaður kæranda er að fara með málatilbúnaði sínum enda virðast þær forsendur sem hann gefur sér ekki eiga við í málinu. 

 

Þá segir í kæru að um sé að ræða brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Ekki er fallist á það þar sem Tryggingastofnun hefur með framkvæmd sinni farið eftir skýru orðalagi laga um almannatryggingar sem löggjafarvaldið hefur ákveðið.

 

Með lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð setti löggjafinn sérlög til að uppfylla þau markmið sem sett eru með 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944 um opinbera aðstoð vegna sjúkleika, örorku o.fl. og eftir þeim lögum starfar Tryggingastofnun

 

Veikindi kæranda breyta því ekki að Tryggingastofnun ber að starfa lögum samkvæmt og hefur ekki heimild til að framkvæma endurreikning tekjutengdra bóta á annan hátt en gert var þrátt fyrir að aðstæður séu eins og í máli þessu.

 

4. Niðurstaða

 

Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.“

 

Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 14. maí 2012, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi, dags. 6. júní 2012, bárust m.a. svofelldar athugasemdir frá lögmanni kæranda:

 

„1. Skortur á lagaheimild

 

Þeirri röksemd Tryggingastofnunar er mótmælt að stofnuninni hafi verið rétt að skerða bætur umbjóðanda míns þar sem a-liður 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 mæli fyrir um að þegar um hjón sé að ræða skiptist fjármagnstekjur þeirra til helminga milli þeirra við útreikning bóta.

 

Ákvæðið verður að túlka í ljósi 101. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sem er sérhæfðara ákvæði um það tímamark sem miða ber við fjárskipti hjóna vegna hjúskaparslita. Samkvæmt því ákvæði ber að miða eignir og skuldir við það tímamark þegar sýslumaður tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar, en í tilviki umbjóðanda míns var það X 2009. Tekjur og arður af þeim eignum sem þá voru til staðar komu einnig til skipta. Eftir að uppvíst varð að eiginmaður umbjóðanda míns hafði selt hlutabréf að henni forspurðri, löngu eftir sambúðarslit á árinu 2010, komu þeir fjármunir til skipta sem fyrir þau fengust. Sá söluhagnaður getur ekki talist fjármagnstekjur hjóna í merkingu a-liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar þar sem hann stafar af eign sem var til staðar á því tímamarki sem miða ber við fjárskipti hjóna vegna hjúskaparslita skv. 101. gr. hjúskaparlaga.

 

2. Undanþága frá endurkröfu sökum bágra fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna og góðrar trúar um greiðslurétt

 

Sé ekki fallist á ofangreindar röksemdir er farið fram á undanþágu frá endurkröfu Tryggingastofnunar skv. 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. [...].“

Athugasemdir lögmanns kæranda ásamt viðbótargögnum sem bárust frá honum voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 8. júní 2012. Viðbótargreinargerð, dags. 20. júní 2012, barst frá stofnuninni og var hún kynnt lögmanni kæranda með bréfi, dags. 25. júní 2012.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótagreiðslum kæranda á árinu 2010.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar er tilurð fjármagnsteknanna rakin. Kærandi vísar til þess að hún hafi gengið frá skilnaði við fyrrum eiginmann sinn á árinu 2011 eftir að upphaflega hafi verið leitað eftir skilnaði í X 2009. Meðal eigna búsins hafi verið eignarhlutur mannsins í tilteknu fyrirtæki sem hann hafi selt á árinu 2010. Greiðsla vegna sölu hlutarins hafi numið X kr. og við búskiptin hafi þessi fjárhæð komið til skipta sem eign. Fjárhæðina hefði maðurinn fengið greidda löngu eftir að þau hafi slitið sambúð. Fjárhæðin hafi reiknast sem hluti af hjúskapareign mannsins við fjárskiptin. Eignin hafi komið til skipta milli aðila við skilnaðinn samkvæmt ákvæðum hjúskaparlaga og hafi helmingur þeirrar fjárhæðar komið í hlut kæranda, eða X kr. Kærandi ber fyrir sig að þetta sé eign sem hafi fallið í hennar hlut við skilnaðinn samkvæmt helmingaskiptareglu hjúskaparréttar en ekki sem tekjur. Kærandi telur að umbreyting eignarinnar úr hlutdeild í fyrirtæki yfir í peninga eftir að búið hafi verið að leita eftir skilnaði frá sýslumanni eigi ekki að hafa áhrif á réttastöðu kæranda þegar komi að greiðslu örorkubóta. Þá telur kærandi endurreikning stofnunarinnar brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að útreikningur bóta almannatrygginga byggi á tekjum bótaþega samkvæmt skattframtali og að ekki sé heimilt að líta til tilurðar fjármagnsteknanna. Stofnunin vísar til Hæstaréttardóms nr. 395/2008 því til stuðnings. Þá segir að kærandi hafi sannanlega verið í hjúskap á árinu 2010 og því hafi stofnuninni borið að meðhöndla fjármagnstekjur hennar á tiltekinn hátt, sbr. 16. gr. almannatryggingalaga.

 

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun á árinu 2010. Í 2. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kemur eftirfarandi fram:

 

„Umsækjanda og bótaþega er skylt að veita Tryggingastofnun ríkisins allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Einnig er maka umsækjanda eða bótaþega skylt að veita upplýsingar um sig ef þær kunna að hafa áhrif á fjárhæð bóta. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda hjá skattyfirvöldum [...].“

 

Samkvæmt ákvæðinu er bótaþega ennfremur skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur. Af framangreindu lagaákvæði verður ráðið að sú ábyrgð hvíli á bótaþega að réttar upplýsingar um tekjur hans á bótagreiðsluári liggi fyrir hjá Tryggingastofnun ríkisins við bótaútreikning.

 

Eins og áður greinir lýtur ágreiningur málsins að endurgreiðslukröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta á árinu 2010. Samkvæmt gögnum málsins kom í ljós við endurreikninginn að kærandi átti ekki rétt til neinna bótagreiðslna en hún hafði fengið greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um útreikning og endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum lífeyristryggingum. Í 7. mgr. framangreindrar 16. gr. segir svo: 

 

„Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein.“

 

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði ber Tryggingastofnun ríkisins lögbundna skyldu til að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram. Við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum kæranda á árinu 2010 reiknaðist stofnuninni að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár samtals að fjárhæð X kr. Ofgreiðslan stafaði af því að í tekjuáætlun fyrir árið 2010 hafði eingöngu verið reiknað með að kærandi myndi hafa launatekjur að fjárhæð X kr. Samkvæmt skattframtali vegna tekjuársins 2010 reyndust launatekjur hins vegar engar vera en lífeyrissjóðstekjur reyndust vera X kr. og fjármagnstekjur reyndust vera X kr.

 

Í 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um að ofgreiddar bætur skuli innheimtar.  Í 2. mgr. greinarinnar kemur m.a. fram að ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögunum séu ofgreiddar af Tryggingastofnun ríkisins skuli það sem sé ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi öðlast síðar rétt til

 

Eins og áður greinir eru fjármagnstekjur sem taldar voru fram í skattframtali kæranda en ekki í tekjuáætlun ástæða þess að endurgreiðslukrafan myndaðist. Í máli þessu hefur kærandi m.a. borið fyrir sig að fjármagnstekjurnar séu tilkomnar vegna sölu fyrrum eiginmanns hennar á hlut hans í tilteknu fyrirtæki á árinu 2010. Fjárhæðin hafi verið hjúskapareign mannsins og hafi helmingur hennar komið í hlut kæranda samkvæmt helmingaskiptareglu hjúskaparréttar við skilnað þeirra. Vísað er til þess að upphaflega hafi verið leitað eftir skilnaði í X 2009. Á þeim tíma hafi fyrrum eiginmaður kæranda ekki verið búinn að selja framangreindan hlut í fyrirtækinu. Samkvæmt ákvæðum hjúskaparlaga beri að miða við eignir og skuldir á þeim tíma þegar sýslumaður hafi fyrst tekið við umsókn um leyfi til skilnaðar, sem hafi verið í X 2009.

 

Það liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að kærandi og fyrrum eiginmaður hennar gengu formlega frá skilnaði í X 2011 en þau töldu fram til skatts sitt í hvoru lagi vegna tekjuársins 2010. Með hliðsjón af því voru kærandi og fyrrum eiginmaður hennar ennþá skráð í hjúskap samkvæmt opinberri skráningu á árinu 2010. Í a-lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kemur fram að fjármagnstekjur skiptist til helminga milli hjóna við bótaútreikning. Í ákvæðinu segir að ekki skipti máli „hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða“. Það liggur fyrir samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2010 að fjármagnstekjur kæranda voru skráðar X kr. Samkvæmt gögnum málsins var skattframtal kæranda leiðrétt þar sem fjármagnstekjur voru tilgreindar X kr. og var sú fjárhæð lögð til grundvallar endurreikningi Tryggingastofnunar eftir viðeigandi reglum. Þá er óumdeilt í málinu að um helmingur þessara tekna komu í hlut kæranda.

 

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið fellst úrskurðarnefnd almannatrygginga ekki á það með kæranda að ákvæði í hjúskaparlögum komi í veg fyrir að framangreindar fjármagnstekjur sem tilgreindar eru í skattframtali kæranda hafi áhrif á endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótagreiðslum hennar samkvæmt lögum um almannatryggingar. Eins og áður greinir nálgast Tryggingastofnun upplýsingar um tekjur bótagreiðsluþega frá skattyfirvöldum við endurreikning tekjutengdra bótagreiðslna. Leiði samanburður á tekjuáætlun og skattframtali í ljós að bótaþega hafi verið ofgreiddar bætur ber honum lögum samkvæmt að endurgreiða þann hluta bótafjárhæðinnar sem hann hafði ekki lögbundinn rétt til að fá greiddar. Það er á ábyrgð bótaþega sem nýtur tekjutengdra bóta að hafa gætur á því að tekjuáætlun sé rétt og í samræmi við þær tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Tryggingastofnun ber að innheimta ofgreiddar bætur lögum samkvæmt, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007. Í því tilliti hefur stofnunin enga heimild til að virða að vettugi upplýsingar skattyfirvalda.

 

Fjárhæð fjármagnstekna kæranda er fengin frá skattyfirvöldum vegna tekjuársins 2010. Úrskurðarnefnd almannatrygginga vefengir ekki þá fjárhæð. Kærandi og fyrrum eiginmaður hennar voru opinberlega skráð í hjúskap á árinu 2010 þrátt fyrir að hafa talið fram til skatts sitt í hvoru lagi. Samkvæmt gögnum málsins gekk skilnaður þeirra í gegn í X á árinu 2011 og fjárskiptasamningur lá fyrir í júní þess sama árs. Fjármagnstekjurnar hafa því réttilega áhrif á bótaútreikning kæranda, sbr. a-lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

 

Í málatilbúnaði sínum vísar kærandi til mannréttindaákvæða stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og telur það að hafa verið svipt örorkubótum ofan á allt sem á undan hafi gengið sé á skjön við tilgang þess velferðarkerfis sem stjórnarskránni sé ætlað að vernda. Í því tilliti er vert að árétta að hlutverk úrskurðarnefndar almannatrygginga hefur verið markað í 7. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þar sem segir:

 

„Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum þessum kveður sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr.

 

Að framangreindu ákvæði virtu hefur úrskurðarnefndin engar heimildir lögum samkvæmt til að taka afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn mannréttindaákvæðum stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944. Slík ágreiningsefni heyra undir dómstóla landsins. Að því virtu verður þessi málsástæða kæranda ekki tekin til frekari umfjöllunar.

 

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að staðfesta beri endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins á bótagreiðslum til kæranda á árinu 2010.

 

Í athugasemdum við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins fer kærandi fram á niðurfellingu endurgreiðslukröfunnar með vísan til undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Gögn málsins bera ekki með sér að Tryggingastofnun ríkisins hafi tekið afstöðu til þeirrar beiðni kæranda. Í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar um rétt borgaranna til að skjóta ákvörðunum lægra setts stjórnvalds til endurskoðunar fyrir æðra stjórnvaldi verður að telja nauðsynlegt að Tryggingastofnun leysi fyrst úr þessu álitefni áður en fjallað er um það fyrir úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því er þessum hluta málsins vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins og lagt fyrir stofnunina að leggja mat á hvort skilyrði framangreinds reglugerðarákvæðis séu uppfyllt í tilviki kæranda.

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Endurreikningur á tekjutengdum bótagreiðslum A, á árinu 2010 er staðfestur. Beiðni kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfunnar er vísað til Tryggingastofnunar ríkisins til úrlausnar.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

Friðjón Örn Friðjónsson formaður

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum